Sport

Ætlar að halda sínu striki

Martin Jol hefur gert frábæra hluti með Tottenham síðan hann tók við liðinu og stefnir á Evrópukeppnina
Martin Jol hefur gert frábæra hluti með Tottenham síðan hann tók við liðinu og stefnir á Evrópukeppnina NordicPhotos/GettyImages

Martin Jol, stjóri Tottenham Hotspur, ætlar að halda sínu striki og vera með stóran leikmannahóp hjá félaginu þrátt fyrir að hafa verið gagnrýndur nokkuð af þeim Sean Davis og Pedro Mendes sem í dag gengu til liðs við Portsmouth. Leikmennirnir sögðu hafa verið erfitt að vera úti í kuldanum hjá Tottenham og kvörtuðu yfir að fá afar fá tækifæri í byrjunarliðinu.

"Ég skil ósköp vel að þeir skuli ekki vera sáttir, því þegar menn lenda jafnvel í meiðslum eða eru fyrir utan þann hóp sem stjórinn er að nota hverju sinni, verður lífið enginn dans á rósum," sagði Jol, en tók fram að hann ætlaði engu síður að halda sig við þá stefnu að vera með stóran leikmannahóp.

"Það er ekki auðvelt að vera með svona stóran leikmannahóp því það verða alltaf einhverjir að væla yfir spilatíma. Auðvitað verða menn fúlir ef þeir fá ekki að spila. Svona er bara fótboltinn," sagði Jol.

Tottenham hefur nú verið orðað við varnarmanninn Wayne Bridge hjá Chelsea og sagt er að félagið hafi í huga að bjóða Chelsea 6 milljónir punda í leikmanninn. Jol vildi lítið gefa út á þær fregnir.

"Ég neita því ekki að við erum að horfa eftir leikmönnum í stað þeirra þriggja sem við vorum að selja, en ég ræði ekki um leikmenn sem við erum að skoða," sagði Jol.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×