„Við látum ekki kúga okkur núna, ekki fremur en við höfum látið kúga okkur áður fyrr,“ sagði Abdullah Gul, utanríkisráðherra Tyrklands, í gær í Nikosíu, höfuðborg tyrkneska hlutans á Kýpur.
Evrópusambandið hefur undanfarið beitt Tyrki nokkrum þrýstingi um að opna bæði flugvelli og hafnir í Tyrklandi fyrir skipum og flugvélum frá gríska hlutanum á Kýpur. Evrópusambandið hefur hótað Tyrkjum því, að verði þeir ekki við þessu fyrir árslok, þá geti svo farið að ekkert verði úr frekari aðildarviðræðum Tyrkja við Evrópusambandið, að minnsta kosti ekki alveg á næstunni.
Í gær héldu Kýpur-Tyrkir upp á það að 23 ár voru liðin frá því þeir stofnuðu sérstakt ríki á norðanverðri eyjunni. Tyrkland er hins vegar eina ríkið í heiminum sem viðurkennir ríki Kýpur-Tyrkja.
Suðurhluti eyjunnar, sem er undir stjórn Kýpur-Grikkja, fékk aðild að Evrópusambandinu árið 2004 og krefst þess að fá aðgang að höfnum og flugvöllum í Tyrklandi alveg eins og önnur aðildarríki Evrópusambandsins.
Tyrkir neita hins vegar alfarið að veita þeim þann aðgang nema Evrópusambandið létti jafnframt öllum hömlum á samgöngum við tyrkneska hlutann á Kýpur.
„Við bíðum eftir að hömlunum verði aflétt,“ sagði Gul í gær. Hann krefst þess einnig að Sameinuðu þjóðirnar sjái áfram um að miðla málum í deilunni milli Kýpur-Grikkja og Kýpur-Tyrkja.
„Að búast við því að Tyrkland láti undan með því að flytja deiluna frá Sameinuðu þjóðunum til Evrópusambandsins er blindgata,“ sagði Gul.