Innlent

Vantaði rök fyrir að leyfa ekki bátalægi við Þingvallavatn

Framkvæmdir við Þingvallavatn Svona var umhorfs þegar framkvæmdir voru stöðvaðar við sumarhús Péturs Jóhannssonar við Þingvallavatn.
Framkvæmdir við Þingvallavatn Svona var umhorfs þegar framkvæmdir voru stöðvaðar við sumarhús Péturs Jóhannssonar við Þingvallavatn.

Felld hefur verið úr gildi sú ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar að synja sumarhúsaeiganda við Þingvallavatn um leyfi til að gera bátalægi.

Þáverandi skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu, Arinbjörn Vilhjálmsson, stöðvaði í ágúst 2004 hafnargerð Péturs Jóhannssonar, sem reyndar er hafnarstjóri í Reykjanesbæ. Pétur, sem ekki hafði sótt um leyfi fyrir framkvæmdunum, sótti í kjölfarið um leyfið en fékk synjun frá sveitarstjórninni. Þá ákvörðun kærði Pétur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem nú hefur sagt að Bláskógabyggð hafi ekki fært rök fyrir synjun sinni.

Þrátt fyrir þessa niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar stendur enn óhögguð stöðvun hafnarframkvæmda Péturs sem ekki kærði ákvörðun Bláskógarbyggðar um stöðvunina heldur aðeins synjunina á framkvæmdaleyfinu.

Að sögn Péturs Inga Haraldssonar skipulagsfulltrúa er málið nú í raun því komið á sama punkt og það var eftir að framkvæmdir voru stöðvaðar. Hugsanlegt sé að sótt verði um leyfi að nýju. Hvernig sem fari þá sætti sveitarfélagið sig ekki við núverandi stöðu málsins því frá því framkvæmdir voru stöðvaðar hafi ekkert verið hreyft við gífurlegu raski sem orðið hafi á vatnsbakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×