Þúsundir finnskra farþega komust ekki leiðar sinnar í gær þegar fimmtán hundruð flugþjónar finnska flugfélagsins Finnair lögðu niður störf. Nærri allt millilandaflug fyrirtækisins lá því niðri í gær þó nokkrar vélar flygju bæði til Evrópu og innanlands.
Verkfallið hófst daginn fyrir leiðtogafund Evrópusambandsins, sem haldinn er í Suður-Finnlandi í dag.
Flugþjónarnir eru ósáttir við nýjar reglur fyrirtækisins varðandi ráðningar, en fyrirtækið ætlar að ráða starfsfólk í gegnum dótturfyrirtæki sitt í Eistlandi á lægri launum en finnskt starfsfólk. Samningaviðræður munu halda áfram í dag.