Fimmtán menn sem grunaðir eru um að hafa tilheyrt Tamílatígrunum dulbjuggust sem fiskimenn í gær og sprengdu sjálfa sig og tvo báta í loft upp í flotastöð Galle-borgar á Srí Lanka með þeim afleiðingum að minnst einn fórst og 26 særðust. Allir uppreisnarmennirnir fórust einnig og þrjú herskip skemmdust í árásinni. Lögregla setti útgöngubann á og öryggisgæsla var gífurleg í Galle-borg eftir árásina.
Nokkrum tímum síðar réð st stjórnarherinn á Tamílatígrana í Batticaloa og tilkynnti talsmaður Tamílatígranna að einn óbreyttur borgari hefði farist í árásinni og tveir særst. Óttast er að sjálfsmorðsárásin ógni ferðamannaiðnaðinum á Srí Lanka, en Galle er einn vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna í landinu. Galle er 110 kílómetrum sunnan við höfuðborgina, Kólombó.
Jafnframt töldu fréttaskýrendur að árásin myndi hafa slæm áhrif á friðarviðræður Tamílatígranna og ríkisstjórnar Srí Lanka, sem hefjast eiga í Sviss í lok þessa mánaðar.