Innlent

Telur andstöðuna vera mótsagnakennda

Einar k. Guðfinnsson Mótmæli annarra þjóða hafa ekki komið sjávarútvegsráðherra á óvart.
Einar k. Guðfinnsson Mótmæli annarra þjóða hafa ekki komið sjávarútvegsráðherra á óvart.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir að viðbrögðin við ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hefja atvinnuhvalveiðar að nýju hafi verið fyrirsjáanleg.

Aðspurður segir hann mótmæli Bandaríkjanna ekki koma sér á óvart en að þau séu mótsagnakennd. „Mér finnst það afskaplega skrítið og ég hef talið að við værum í góðra vina hópi þegar við færum að veiða hval í atvinnuskyni. Við fylgjum í fótspor Bandaríkjamanna að þessu leyti. Við erum hér að veiða hvali óralangt innan þeirra marka sem vísindamenn telja óhætt og þó að mótmæli bandarískra stjórnvalda komi mér ekki beint á óvart þá finnst mér þau mjög mótsagnakennd, þó ekki sé nú meira sagt. Ég veit að þeir eru að veiða mun meira en heimildin sem ég gaf út kveður á um og mun stærra hlutfall úr veiðistofninum en við erum að gera.“

Mótmæli annarra þjóða hafa ekki komið Einari á óvart á neinn hátt. „Ég hef heyrt viðbrögðin frá breskum stjórnvöldum og ég veit að Nýsjálendingar hafa látið í sér heyra. Ég bjóst við því þar sem þetta eru þjóðir sem eru þekktar fyrir andstöðu gegn hvalveiðum. Ég hefði verið undrandi ef þessar þjóðir hefðu ekki ítrekað sjónarmið sín.“

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir Bandaríkjamenn veiða Grænlandssléttbak við Alaska undir formerkjum frumbyggjaveiða. Árið 2004 veiddu Japanar mest allra þjóða innan Alþjóðahvalveiðiráðsins í tonnum talið en Bandaríkjamenn og Rússar fylgdu þar í næstu sætum með veiði í kringum 2.000 tonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×