Sport

Sverre þarf að fara í aðgerð

Varnartröllið Sverre Jakobsson hjá Gummersbach fer í aðgerð á ökkla á morgun til að ráða bót á meiðslum sem hafa hrjáð hann síðustu vikur. Sverre hefur ekki getað tekið þátt í síðustu leikjum Gummersbach vegna meiðslanna og kom meðal annars hingað til lands í gifsi þegar Gummersbach heimsótti Fram í Meistaradeildinni í síðustu viku. Sú hvíld gerði ekki sitt gagn og segir Sverrir að aðgerð sé óumflýjanleg.

„Þetta hefur verið að angra mig í langan tíma og það gerði bara illt verra að spila svona mikið í upphafi tímabils. Liðbandið í ökklanum er við það að slitna og það verður að grípa til þessara ráða," segir Sverre en talið er að hann verði frá keppni í um tvo mánuði.

„Ég fæ þá vonandi smá tíma til að vinna mér sæti í landsliðinu fyrir HM," sagði Sverre sem var staddur á McDonalds í heimabæ sínum þegar Fréttablaðið ræddi við hann í gær. „Maður leyfir sér ýmislegt á laugardögum," sagði Sverre léttur á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×