Sport

Eyjamenn niðurlægðir

Í baráttunni. Garðar Jóhannsson er hér í baráttunni um boltann í leiknum í gær en hann fór fyrir frábærum sóknarleik Vals í leiknum.
Í baráttunni. Garðar Jóhannsson er hér í baráttunni um boltann í leiknum í gær en hann fór fyrir frábærum sóknarleik Vals í leiknum.
Garðar Jóhannsson gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu gegn döpru liði ÍBV í Laugardalnum í gær. Valsmenn hófu leikinn af krafti og mættu mun ákveðnari til leiks en Eyjamenn sem áttu ekki skot að marki í fyrri hálfleiknum. Heimamönnum gekk þó illa að skapa sér færi en héldu boltanum vel innan liðsins og biðu þolinmóðir eftir tækifærunum.

Þau komu og Garðar Jóhannsson skoraði laglegt mark með skalla í stöngina og inn eftir fyrirgjöf Birkis Más Sævarssonar sem átti lipra spretti í leiknum. Bo Henriksen var einmana í sóknarlínu ÍBV og mátti sín lítils gegn Vali Fannari Gíslasyni og Barry Smith sem héldu sóknum Eyjamanna í skefjum.

Valsmenn bætti við öðru marki áður en fyrri hálfleikur var allur og aftur var Garðar að verki. Nú átti hann gott þríhyrningaspil við Sigurbjörn Hreiðarsson sem endaði með góðu skoti Garðars í markið og heillum horfnir Eyjamenn fóru í vondri stöðu inn í hálfleikinn.

Í hálfleiknum þurfti að skipta um línuvörð þar sem Gunnar Gylfason, starfsmaður KSÍ, þurfti að hlaupa upp á fæðingardeild þar sem konu hans var flýtt þangað.

Yfirburðir Valsmanna héldu áfram í síðari hálfleik en þeirkomust í 3-0 þegar Matthías Guðmundsson slapp einn í gegn eftir sendingu frá Sigurbirni, fór auðveldlega framhjá Hrafni og renndi boltanum í netið. Skömmu síðar innsiglaði Garðar svo þrennuna þegar hann fylgdi eftir skalla Pálma Rafns sem Hrafn hafði varið vel og niðurlæging ÍBV var fullkomnuð.

Matthías skaut svo þrumuskoti í þverslánna áður en hann rak síðasta naglann í kistu Eyjamanna þegar hann renndi boltanum í netið eftir að hann og Birkir höfðu sluppið aleinir í gegnum götótta Eyjavörnina.

Eyjamenn virtust algjörlega áhugalausir í leiknum og stefna hraðbyri niður í 1. deildina með þessu áframhaldi á meðan Valsmenn eru komnir í annað sæti deildarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×