Innlent

Vill þingfund fyrir áramót

Vinstri-grænir vilja kalla þing saman fyrir áramót. Formaður Samfylkingarinnar telur enn tíma til þess.
Vinstri-grænir vilja kalla þing saman fyrir áramót. Formaður Samfylkingarinnar telur enn tíma til þess. MYND/Vilhelm

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir flokkinn tilbúinn til að tilnefna fulltrúa í nefnd forsætisráðherra vegna niðurstöðu Kjaradóms, að því gefnu að þing verði kallað saman á morgun eða á gamlársdag, til að setja lög sem fresta gildistöku launahækkana æðstu embættismanna. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingar, telur enn hægt að kalla þing saman fyrir áramót.

Þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs komu saman til fundar í morgun til að ræða niðurstöðu kjaradóms um laun þingmanna og ráðherra og störf nefndar sem forsætisráðherra hyggst skipa til að fara yfir stöðuna.

"Við erum tilbúin að setja fulltrúa í nefnd til að endurskoða lögin um kjaradóm og kjaranefnd, að því undangengnu að Alþingi komi saman og fresti gildistöku úrskurðarins. Það getur þingið gert með því að koma saman á morgun eða þess vegna gamlársdag," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Þingflokkur Samfylkingarinnar kom saman til fundar klukkan eitt. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir afstöðu flokksins til nefndarskipunar ráðast þar. Hún segir málið orðið óttalegt klúður og segir að það hefði verið hyggilegra af forsætisráðherra að fara að tilmælum stjórnarandstöðunnar og kalla þing saman heldur en að spila biðleik með því að leita til kjaradóms á ný. Þess vegna hafi dýrmætur tími tapast.

Þingmenn Frjálslynda flokksins eru reiðubúnir að ræða þær forsendur sem kjaradómur á að dæma eftir en líst lítið á að finna annað form til að ákvarða laun þingmanna. Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður flokksins, segir erfitt að ímynda sér hvað ætti að koma í staðinn og segist hafa sérstaklega lítinn áhuga á því að þingmenn lendi aftur í því að ákvarða laun sín eins og var fyrir tíð kjaradóms.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×