Sport

Vanmetur ekki Everton

Rafael Benitez segist reynslunni ríkari eftir grannaslaginn á Goodison á síðustu leiktíð
Rafael Benitez segist reynslunni ríkari eftir grannaslaginn á Goodison á síðustu leiktíð NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez, stjóri Liverpool, segir að hans menn muni alls ekki vanmeta granna sína í Everton þegar liðin mætast á Goodison Park á morgun, en liðin tvö í Bítlaborginni eru á gjörólíkum stað í deildinni. Benitez bendir þó á að staða liðanna í deildinni hafi ekkert að segja þegar í leikinn er komið.

"Það var ekki góð reynsla fyrir mig á mínu fyrsta tímabili með liðið, að fara á Goodison og tapa 1-0, en ég er reynslunni ríkari núna og við munum fara í þennan leik fullir sjálfstrausts," sagði Benitez, en hans menn hafa ekki fengið á sig mark í óratíma og hafa unnið átta leiki í röð.

"Ég veit að sigur gegn Everton er alltaf mjög mikilvægur fyrir stuðningsmenn okkar, en í mínum augum er þetta þó bara spurning um að ná í stigin þrjú eins og í öðrum leikjum. Við ætlum okkur að ná í sex stig yfir jólin," sagði Benitez og bendir á að vandræði Everton í ár þurfi ekki að koma mikið á óvart.

"Ég hef séð lið eins og Real Betis og Real Sociedad lenda í svipuðum vandamálum heima á Spáni. Rétt eins og Everton, gekk þessum liðum vel eitt tímabil og endaði ofarlega í töflunni, en árið eftir er alltaf gríðarlega erfitt og þá eiga lið það til að hríðfalla niður töfluna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×