Sóknarmaðurinn öflugi Michael Owen hjá Newcastle, segist hlakka mikið til að spila við fyrrum félaga sína í Liverpool um jólin, en tekur það fram að hann sjái alls ekki eftir því að hafa gengið í raðir Newcastle frá Real Madrid á Spáni.
"Ég vissi alltaf að það yrði mjög skrítið að fara aftur á Anfield með öðru liði ef ég kæmi aftur í úrvalsdeildina. Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvernig þetta verður, en ég hlakka fyrst og fremst til að hitta alla gömlu félagana, því ég var auðvitað búinn að vera hjá Liverpool síðan ég var ellefu ára. Ég hefði samt aldrei gert fjögurra ára samning við Newcastle ef ég hefði ekki vitað að hér væri frábært að vera og ég er viss um að ef við náum að vinna nokkra leiki í röð núna, eigum við eftir að eiga frábært tímabil," sagði Owen.