Sport

Wenger er öruggur í starfi

Gengi Arsenal hefur verið upp og niður í vetur, en Dixon telur Wenger vera rétta manninn til að koma liðinu á beinu brautina á ný
Gengi Arsenal hefur verið upp og niður í vetur, en Dixon telur Wenger vera rétta manninn til að koma liðinu á beinu brautina á ný NordicPhotos/GettyImages

Lee Dixon, fyrrum leikmaður Arsenal, fullyrðir að knattspyrnustjóri félagsins, Arsene Wenger, búi við gott starfsöryggi þó árangur liðsins hafi verið langt undir væntingum í vetur.

"Það er ekki möguleiki á því að Wenger verði sagt upp hjá Arsenal eftir það frábæra starf sem hann hefur unnið hjá félaginu. Liðið er að ganga í gegn um ákveðnar breytingar um þessar mundir, en Arsene veit upp á hár hvað hann er að gera," sagði Dixon í samtali við BBC.

Arsenal hefur aldrei lokið keppni neðar en í öðru sæti síðan Wenger tók við árið 1997, sem er frábær árangur, en ef svo fer sem horfir í vetur, gæti verið að ekki takist að endurtaka leikinn í vor.

Dixon telur að liðinu hafi gengið illa að fylla skarð Patrick Vieira, þó hann verji ákvörðun félagsins að selja hann á sínum tíma og bendir á að það sé engin tilviljun að leikirnir sem liðið hefur tapað í vetur, hafi verið leikir gegn liðum sem spila fast. "Ungu strákarnir á miðjunni eiga svo sannarlega framtíðina fyrir sér, en þeir eiga erfitt uppdráttar í leikjum gegn liðunum sem spila fast og þar kom í ljós hve mikilvægt er að hafa sterka leikmenn með reynslu innan liðsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×