Sport

Liverpool í 2. sætið

Jamie Carragher fagnar félaga sínum, Fernando Morientes sem skoraði bæði mörk Liverpool í dag.
Jamie Carragher fagnar félaga sínum, Fernando Morientes sem skoraði bæði mörk Liverpool í dag.

Liverpool náði í dag 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta þegar liðið sigraði Middlesbrough 2-0. Fernando Morientes skoraði bæði mörk Liverpool með 5 mínútna millibili, á 72. og 77. mínútu leiksins. Leikurinn var fyrr á dagskrá en aðrir leikir dagsins í deildinni sem hefjast kl. 15.

Sigurinn var verðskuldaður en yfirburðir Liverpool í leiknum voru miklir. Liðið átti 23 skot að marki Boro sem náði aðeins 6 skotum að marki andstæðinga sinna í leiknum. 13 af skotum Liverpool manna rötuðu á markið en aðeins þrjú af skotum gestanna rötuðu á ramma heimamanna. Heimamenn voru einnig mun meira með boltann eða 62% gegn 38% Boro-leikmanna.

Chris Riggott leikmanni Middlesbrough var vikið af velli á 84. mínútu þegar hann fékk að líta sitt annað gula spjald en þá braut hann á Steven Gerrard.

Liverpool er með 31 stig í öðru sæti deildarinnar eftir sigurinn, níu stigum á eftir toppliði Chelsea en liðin hafa bæði leikið 15 leiki.

Manchester United getur endurheimt annað sæti deildarinnar þegar liðið tekur á móti Everton á morgun sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×