Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea segir að Frank Lampard sé besti leikmaður í heimi í dag. Lampard átti enn einn stórleikinn fyrir Chelsea í 4-2 sigrinum á Blackburn í gær og skoraði tvö mörk og hefur nú alls skorað 100 mörk. Mourinho segir að Lampard geti einfaldlega ekki orðið betri.
"Ég get ekki séð hvernig hann á að bæta sig vegna þess að hann er besti leikmaður í heimi eins og er. Ég veit ekki hvað þessir menn sem skipuleggja verðlaun fyrir besta leikmann í heimi gera um helgar eiginlega. Aðeins Englendingar sjá í raun og veru hvað þessi leikmaður er. Hann var besti leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Það eru margir frábærir leikmenn í heiminum en þeir eiga að meðaltali ekki nema einn góðan leik í mánuði. Lampard á toppleik í hverjum einasta leik." segir Mourinho og kveðst ekki munu skipta á Lampard fyrir neinn annan leikmann.
"Hann gerir allt. Varnaleikurinn hans er ótrúlegur, hann getur gefið langar sem stuttar sendingar, hann er fagmaður, hann getur skorað mörk úr löngum færum, hvernig getur hann bætt sig?"
Sport