Innlent

Tvö ár bætast við fyrri dóm

MYND/Valgarð Gíslason
Rúmlega fertugur karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að ráðast í mars í fyrra á mann með kylfu og berja hann ítrekað fast í höfuðið. Þá var hann dæmdur fyrir að hafa haft í fórum sínum fíkniefni, hass, amfetamín og MDMA-töflur, og fyrir nokkra smáþjófnaði. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur, en hann bætist við dóm sem maðurinn hlaut í febrúar síðastliðnum fyrir "ítrekuð og svívirðileg" kynferðisbrot gegn stjúpdóttur hans á árunum 1997 til 2002. Einnig var ákærður fyrir þátttöku í árásinni í fyrra drengur, sem þá var 17 ára, en þeir félagar höfðu hitt manninn niðri í bæ og buðu honum far í hús í Reykjavík þar sem sá ætlaði að hitta fyrir fyrrverandi eiginkonu sína. Fram kom að tilgangur árásarinnar hefði verið að ræna af manninum eiturlyfjum. Maðurinn og drengurinn voru dæmdir til að greiða fórnarlambi sínu 600 þúsund krónur í skaðabætur. Lögmaður drengsins segir hann ósáttan við dóminn, en hann kveðst hvergi hafa komið nærri árásinni og íhugar áfrýjun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×