Innlent

Ógnuðu starfsfólki með hnífum

Vopnað rán var framið í Laugarnesapóteki um klukkan tvö í dag. Tveir menn vopnaðir hnífum ógnuðu starfsfólki og vitorðsmaður þeirra beið í bíl skammt frá og komst hann tímabundið undan. Fjórir starfsmenn voru við störf þegar ræningjarnir æddu öskrandi inn með hnífa á lofti. Starfsmenn flúðu út utan einn sem lét ræningjana fá það sem þeir báðu um, en það var lyf og peningar. Lögreglan hafði fengið tilkynningu um bíl í nágrenni lyfjaverslunarinnar skömmu fyrir ránið. Bíllinn þótti grunsamlegur því breitt hafði verið yfir númeraplötuna.Lögreglan kom til að aðgæta bílinn en í þann mund komu ræningjarnir út úr apótekinu. Í bílnum sat vitorðsmaður ræningjanna. Borgarar í nágrenninu hjálpuðu til við handtöku á tveimur ræningjanna en bílstjórinn komst undan og keyrði upp í Lágmúla. Þar fór hann úr bílnum en tveir lögreglumenn voru þar staddir og tóku hann fastan. Laugarnesapótek er við hliðina á barnaskóla og má segja að börn hafi verið í nokkurri hættu vegna atburðarins. Mennirnir hafa allir komið áður að afbrotum. Þeir eru nú í haldi lögreglu og verða brátt yfirheyrðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×