Sport

Ragnar og Helgi til Noregs

Norsku liðin Viking og Odd Grenland hafa boðið Fylkismanninum Helga Val Daníelssyni reynslusamning en þau vilja ólm fá hann í sínar raðir. Að sögn Ólafs Garðarssonar, umboðsmanns Helga Vals, er ætlunin að hann fari til Noregs á næstunni. Helgi Valur er í efnafræðinámi við Háskóla Íslands og á því erfitt um vik að fara út. Helgi Valur fór í tvígang í reynslu til norska liðsins Start í sumar auk þess sem sænska liðið Sundsvall vildi skoða hann nánar. Samningur Helga Vals við Fylki rennur út í haust."Ég ætla bara að sjá til hvernig málin þróast. Ég hef heyrt af áhuga þessara liða en það verður að fá að koma í ljós hvenær ég kemst út. En ef það verður eitthvað spennandi í boði fyrir mann þá væri auðvitað gaman að komast aftur út í atvinnumennskuna, ég get ekki neitað því," sagði Helgi Valur en hann var áður samningsbundinn enska liðinu Peterborough til nokkurra ára. Hinn nítján ára gamli miðjumaður Fylkis, Ragnar Sigurðsson, er einnig á leiðinni til reynslu hjá Odd Grenland. Arnór Guðjohnsen, umboðsmaður Ragnars, sagði að hann færi til Noregs á fimmtudaginn og yrði í eina viku hjá Odd Grenland. Ragnar sló í gegn með Fylki í sumar og skoraði eitt mark í sautján leikjum. Gunnar Jónsson, leikmaður Breiðabliks, fer einnig með Ragnari til Odd Grenland á fimmtudaginn."Mér líst vel á þetta enda hef ég alla tíð stefnt að því að komast að í atvinnumennskunni erlendis," sagði Ragnar. "Mér líst ágætlega á þetta félag en það verður að koma í ljós hvað verður." Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Ragnar fer til erlends liðs en hann var til skamms tíma hjá þýska liðinu Borussia Mönchengladbach þegar hann var fimmtán ára gamall.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×