Sport

Stórslagur í spænska í kvöld

NordicPhotos/GettyImages
Barcelona og Valencia mætast í kvöld í spænsku úrvalsdeildinni. Barcelona þarf nauðsynlega á sigri að halda í kvöld eftir að hafa tapað óvænt fyrir Atletico Madrid í síðustu umferð. Víctor Valdéz, markvörður Barcelona og spænska landsliðsins, á von á erfiðum leik. "Valencia er sterkt lið og við verðum að vera einbeittir frá fyrstu mínútu. Mistökin sem við gerðum í síðasta leik voru dýr og við verðum að læra af þeim. Svo eru virkilega góðir einstaklingar hjá Valencia, eins og Pablo Aimar, sem við verðum að hafa góðar gætur á." Patrick Kluivert mun að öllum líkindum spila sinn fyrsta leik í byrjunarliðinu hjá Valencia en hann kom frá Newcastle United í sumar eftir misheppnaða dvöl á Englandi. Kluivert lék á árum áður með Barcelona og varð meðal annars spænskur meistari með liðinu. "Þetta verður mikilvægur leikur fyrir mig. Ég er loksins búinn að ná mér af meiðslunum sem hafa verið að hrjá mig að undanförnu og vonandi fæ ég að spila eitthvað. Ef ég skora mark mun ég ekki fagna, því ég á góðar minningar frá því ég lék með Barcelona." Nýkrýndur besti knattspyrnumaður heims af samtökum atvinnumanna í knattspyrnu, Ronaldinho, verður í eldlínunni í kvöld en hann hefur ekki þótt spila nægilega vel í fyrstu leikjum tímabilsins með Barcelona.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×