Innlent

Stefna ÖÍ að verða tilbúin

Lögfræðingar Öryrkjabandalags Íslands leggja nú lokahönd á stefnu á hendur íslenskum stjórnvöldum vegna vanefnda á samningi sem Öryrkjabandalagið gerði við heilbrigðisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í aðdraganda kosninga árið 2003. Að sögn Emils Thoroddsens, formanns Öryrkjabandalagsins, er búist við því að málið verði þingfest fyrir lok októbermánaðar. Öryrkjabandalagið hefur frá því við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2004 sakað ríkisstjórnina um vanefndir á samkomulagi um hækkun grunnlífeyris öryrkja með hliðsjón af aldri. Á fjárlögum ársins 2004 var einungis gert ráð fyrir að um milljarður króna færi í að efna samkomulagið sem útreikningar heilbrigðisráðuneytis gerðu ráð fyrir að þyrfti einn og hálfan milljarð til að efna. Málshöfðunin nú verður sú fjórða sem Öryrkjabandalagið höfðar gegn núverandi ríkisstjórn á tæpum fimm árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×