Innlent

Ófremdarástand undir Óshyrnu

Almannavarnanefnd Bolungarvíkur kemur saman seinni partinn í dag til að ræða hættu af grjóthruni á veginn á Óshlíð undir stórri sprungu efst í fjallsbrúninni á Óshyrnu. Jónas Guðmundsson sýslumaður, sem er formaður almannavarnanefndar Bolungarvíkur, segir illgerlegt að sprengja í fjallinu til að losa um hrun. "Ekki nema þetta stykki sem rætt er um og er þarna yst á Óshyrnunni, en þar er sprunga í fjallinu og það er að gliðna frá. Það þarf að skoða vel hvort þar sé gerlegt að sprengja, en að öðru leyti hafa menn ekki séð sér fært að sprengja mikið," segir hann og telur ástand vegarins áhyggjuefni. "Þetta er eina leiðin á milli, hér er ekki flugvöllur og ekki skipulegar siglingar. Þetta er ófremdarástand og þolinmæði fólks gagnvart þessu minnkar stöðugt." Jónas segir töluverða hættu á ferð því að hnullungarnir komi á stundum á fleygiferð, í gegnum bæði net og varnir, þannig að stórsjái á veginum. "Ef þannig hittist á að bíll er á ferð á sama tíma þarf ekki að spyrja að leikslokum ef stór steinn er á ferð."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×