Innlent

Einn ók niður ljósastaura

Ölvaður ökumaður ók niður tvo ljósastaura á Reykjanesbraut við bensínstöð Orku um klukkan hálf ellefu í gærmorgun. Að sögn lögreglu í Kópavogi slapp maðurinn ómeiddur en bíllinn er talinn ónýtur. Þá var ökumaður stöðvaður í Kópavogi aðfaranótt sunnudags grunaður um ölvun við akstur og annar um klukkan hálfsex síðdegis deginum áður. Að sögn lögreglu kemur bæði til að menn séu stöðvaðir út af aksturslagi og eins sé stundum látið vita um ferðir þeirra til að koma í veg fyrir slys. Frá því síðdegis á laugardag og fram á sunnudagsmorgun tók lögregla í Hafnarfirði sjö ökumenn grunaða um ölvun við akstur og þótti nóg um. Nokkur erill var vegna dansleikjahalds í bænum, en í Kaplakrika var um 1.500 manna skemmtun. Tveir gistu fangageymslur aðfaranótt sunnudags, annar vegna ölvunar og óláta við Kaplakrika, en hinn eftir að hafa ölvaður lent í árekstri á bíl sínum, en í óhappinu meiddist þó enginn. Nokkuð var um hraðakstur, en á Reykjanesbraut var einn tekinn á 126 kílómetra hraða, annar á 139 og sá sem greiðast ók fór á 155 kílómetra hraða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×