Innlent

Fjöldi manns við leit í dag

Stórleit verður framkvæmd í dag að líki 34 ára karlmanns sem fórst eftir að skemmtibátur ók á Skarfasker á Viðeyjarsundi aðfararnótt síðasta laugardags. Jónas Hallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að leitað verði á svæði sem nær allt frá Gróttu og upp á Akranes. Að leitinni kemur fjöldi fólks en að sögn Dagbjartar Brynjarssonar hjá svæðisstjórn björgunarsveita verða á ferðinni 25 til 30 gönguhópar, eða um 100 til 120 manns. "Þá verður notast við um 20 kafara og fólk í kring um þá, 10 bátar og skip leita á sjó, varðskipið Ægir verður við leit og svo verður líka leitað úr lofti," segir hann, en kafarar koma bæði frá Landhelgisgæslunni, Landsbjörgu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Í leitaði þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, við strendur, eyjar og sker allt frá Skerjafirði inn Kollafjörð, út með Kjalarnesi og upp á Akranes, að því er fram kemur í tilkynningu Gæslunnar. "Flogið var í kringum allar eyjar, m.a. Þerney, Lundey, Viðey, Engey og Akurey."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×