Erlent

Mikil spenna í kosningum í Noregi

Mikil spenna ríkir í Noregi vegna þingkosninganna þar í dag. Stjórnar- og stjórnarandstöðuflokkarnir eru hnífjafnir í skoðanakönnunum og enginn treystir sér til að spá fyrir um úrslitin. Þorri Norðmanna gengur að kjörborðinu í dag en nokkrir kusu raunar í gær, þeirra á meðal Kjell Magne Bondevik. Hann og aðrir frambjóðendur börðust um hvert atkvæði fram á síðustu stundu og í miðborg Oslóar var fólk að dreifa miðum og líma plaköt langt fram á kvöld. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að baráttan er geisihörð, kannanir eru mjög misvísandi, sýna ýmist stjórnarflokkana með örlítið forskot eða rauðgræna bandalag stjórnarandstöðunnar með Jens Stoltenberg í broddi fylkingar. Kosningar sem fyrir fram var búist við að yrðu heldur lítið spennandi stefna því í að vera mjög spennandi á lokasprettinum og á forsíðum norsku blaðana er því meira að segja slegið upp að þetta verði einhverjar tæpustu kosningar norskrar stjórnmálasögu. Kannanir benda til þess að einn af hverjum tíu kjósendum ákveði fyrst í kjörklefanum hvern hann kýs. Það er óhætt að segja að kosningamálin í Noregi séu nokkuð ólík því flestir eiga að venjast. Norðmenn eiga olíu, digra sjóði og eru flestir í góðum störfum. Gengi bréfa á norska hlutabréfamarkaðinum hefur þrefaldast síðan snemma árs 2003 og vextir eru í sögulegu lágmarki. Einhver kynni að velta því fyrir sér hvers vegna Kjell Magne Bondevik og stjórn hans var lengi vel í hættu þegar landslagið er jafn gott og raun ber vitni. En Norðmenn eru ekki sáttir og deilan stendur um olíuauðinn. Stjórnarandstaðan vill auka framlög til velferðarmála, menntakerfisins og ellilífeyrisþega. Stjórnarflokkarnir hafa raunar aukið þessi framlög nokkuð en vilja nú fyrst og fremst lækka skatta. Báðar fylkingarnar saka hina um að stefna öllu í voða. Framfaraflokkurinn gæti verið sá flokkur sem ræður úrslitum. Carl Ivar Hagen, leiðtogi hans, hefur lýst því yfir að hann hyggist ekki styðja Bondevik forsætisráðherra áfram, en Hagen og flokkur hans urðu í raun til þess að Bondevik gat myndað núverandi ríkisstjórn án þess að fá neitt fyrir sinn snúð. Innflytjendamál eru ofarlega á málefnalista Framfaraflokksins og gætu því skipti töluverðu máli. Að sama skapi gæti strandflokkurinn, sem er flokkur hvalveiðimanna, komið tveimur mönnum inn og þar með verið með pálmann í höndunum. Munurinn verður lítill hvernig sem fer og því er lögð áhersla á að allir mæti á kjörstað í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×