Innlent

Kviknaði í skála út frá kerti

Kona fékk reykeitrun er eldur kviknaði í svefnskála fjórtan kvenna á Kárahnjúkum rétt eftir miðnætti í fyrrinótt. Á annan tug manna, sumar kvennanna og gestir þeirra, voru í skálanum. Við frumrannsókn lögreglunnar á Egilsstöðum virðist sem eldurinn hafi kviknað út frá logandi kerti við innganginn í skálann. Mikill reykur og sót myndaðist út frá eldinum og var unnið við hreinsunarstörf þar í gær. Skemmdir urðu töluvert miklar í sameiginlegum vistarverum kvennanna við anddyrið. Leó Sigurðsson, öryggisstjóri við Kárahnjúka, þakkar góðu brunavarnarkerfi því hve hratt var brugðist við eldinum. Fólkið hafi einnig brugðist hárrétt við, hringt í Neyðarlínuna og gripið til handslökkvitækis. Eldur hafi verið að mestu slökktur þegar slökkviliðið kom að skálanum: "Reykkafarar fóru inn í húsið og gengu úr skugga um að þar væri enginn, en svo leyndist eldur í fölsku lofti og uppi í þaki og slökktum við hann á stuttum tíma."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×