Innlent

Þrennt handtekið fyrir þjófnað

Tveir menn voru handteknir fyrir þjófnað af lögreglunni í Reykjavík í nótt. Þegar fulltrúar Ríkislögreglustjóra voru að leggja bifreið sinni við bílageymslur embættisins urðu þeir varir við að nýlegu golfsetti hafði verið komið fyrir á staðnum. Skömmu síðar komu tveir menn til að sækja golfsettið og kom þá í ljós að þeir höfðu brotist inn í bifreið í nágrenninu og stolið golfsettinu og ýmsu öðru. Þjófarnir höfðu ekki hugmynd um að þeir hefðu falið golfsettið við bílageymslur Ríkislögreglustjóra. Mennirnir gista nú fangageymslur að sögn lögreglunnar. Kona var handtekin af tveimur óeinkennisklæddum lögreglumönnum í sjoppu á bensínstöð í nótt en þeim þótti grunsamlegt hversu mikið hún verslaði þar. Við athugun kom í ljós að hún hafði stolið debetkorti og verslað út á það fyrir tugi þúsunda króna. Konan var færð í fangageymslur þar sem hún gisti í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×