Innlent

Störf lögreglu verði rannsökuð

Ung hjón hafa krafist rannsóknar á ætlaðri handvömm lögreglunnar í Reykjavík vegna andláts sonar þeirra við fæðingu á Landspítalanum árið 2002. Nokkru eftir legvatnsstungu á móðurinni var barnið tekið með bráðakeisaraskurði en lést fjórum dögum síðar. Foreldrunum voru dæmdar háar bætur í Héraðsdómi. Eitt atriði í ferlinu sem foreldrarnir og lögmaður þeirra vildu fá skýringu á var hvers vegna lát barnsins var ekki tilkynnt til lögreglu eins og reglur kveða á um. Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður foreldranna, kærði málið til Lögreglunnar í Reykjavík tæpu ári eftir andlát drengsins. Hún segir að lögreglan hafi ítrekað reynt að fella málið niður og hún hafi ítrekað kært niðurfellinguna til ríkissaksóknara. Allt kom þó fyrir ekki og Sigríður Rut hefur nú fengið bréf frá ríkissaksóknara þar sem henni er tilkynnt að málið hafi fyrnst í meðförum lögreglunnar. Sigríður er mjög ósátt við þær lyktir og hefur skrifað ríkissaksóknra harðort bréf þar sem hún krefst þess að fyrningin verði rannsökuð enda slík handvömm að ekki verið við unað. Sigríður krefst þess einnig að gripið verði til aðgerða í tilefni af því að málið fyrntist hjá lögreglunni í Reykjavík, embættið verði látið sæta ábyrgð og komið í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×