Innlent

Eldur í húsnæði við Fiskislóð

Allt tiltækt slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um klukkan hálfsjö í morgun vegna bruna í atvinnuhúsnæði við Fiskislóð í Reykjavík. Var útlit fyrir að um stórbruna væri að ræða. Þykkan, svartan reykjarmökk lagði út um allar dyr og glugga en húsnæðið er einungis einn geimur, að hluta til á tveimur hæðum. Reykkafarar áttu því í nokkrum erfiðleikum með að finna eldinn, en að lokum kom í ljós að kviknað hafði í bíl sem geymdur var innst á neðri hæðinni. Þegar eldurinn var fundinn tók stuttan tíma að ráða niðurlögum hans en nokkurn tíma mun taka að reykræsta enda barst reykurinn um allt húsið. Gera þurfti göt á þakið til að hleypa mekkinum út en hann hékk að miklu leyti uppi undir mæni eftir að eldurinn hafði verið slökktur. Engin starfsemi er í húsnæðinu eins og er en eigendur þess eru að breyta því í verslunar- og þjónustuhúsnæði. Tjónið er engu að síður þó nokkurt. Ekki er enn kunnugt um eldsupptök.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×