Innlent

Neitar að hafa vitað af sýrunni

Litháinn sem tekinn var með brennisteinssýru í Leifsstöð neitar að hafa vitað af sýrunni í áfengisflöskum sem hann var með. Aðalmeðferð í máli hans fer nú fram í Héraðsdómi Reykjaness. Litháinn neitar alfarið og segist ekki hafa vitað að brennisteinssýra hafi verið í flöskunum. Hann segist starfa sem bílasali og flytji inn bíla til Litháens frá Þýskalandi. Þá segist hann hafa verið í rútuferð frá Litháen í gegnum Pólland þar sem hann hafi stoppað á götumarkaði og keypt flöskurnar og sett þær í bakpokann en alls ekki vitað af sýrunni. Litháinn gefur þær skýringar á ferðum sínum hingað til lands að hann hafi ætlað að hitta ástkonu sína, litháíska konu sem sé gift og búi í Bretlandi, en hann sé einnig giftur og eigi barn í Litháen. Hann segist hafa komið þrisvar sinnum áður til Íslands og í öll skiptin í frí. Aðalmeðferð í málinu stóð fram undir hádegi en dæmt verður í því á morgun. Verjandi Litháans gangrýndi það harkalega að vökvinn í áfengisflöskunum hefði ekki verið rannsakaður nægilega og taldi að það lægju ekki fyrir sannanir í málinu til þess að dæma manninn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×