Innlent

Varnarliðsmaðurinn neitar sök

Í ljós hefur komið að engin vitni voru að því þegar bandarísku varnarliðskonunni, sem var tvítug, voru veittir áverkar sem síðan drógu hana til dauða. Atburðurinn átti sér stað í húsnæði einhleypra varnarliðsmanna. Varnarliðskonan var með lífsmarki þegar hún fannst á sunnudagskvöldið, en lést skömmu síðar á hersjúkrahúsi á Keflavíkurflugvelli af völdum stungusára. Íslensk kona sem var gestkomandi í íbúðinni reyndist hafa verið í svefnherbergi hins grunaða meðan verknaðurinn var framinn annars staðar í íbúðinni. Varnarliðsmaðurinn hafði átt í deilum við hina látnu vegna þess að hann hafði, í félagi við annan varnarliðsmann, stolið umtalsverðum fjárhæðum af greiðslukorti hennar. Það mál komst upp. Vitorðsmanninum var vikið úr hernum, en enn átti eftir að rétta í máli hins grunaða. Rannsóknardeild sjóhersins og lögreglan á Keflavíkurflugvelli hafa haft samvinnu um rannsókn málsins. Ekki liggur fyrir hvort réttað verður í því hér á landi eða í Þýskalandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×