Innlent

Stór björg féllu úr Óshlíð

Töluverðar skemmdir urðu á veginum um Óshlíð og varnargirðingum í hlíðinni þegar stór björg féllu úr hlíðinni í gær. Björgin féllu á þriðja tímanum og þykir mildi að björgin lentu ekki á bílum sem óku um Óshlíðina. Svo virðist sem björgin hafi losnað ofarlega í hlíðinni, utarlega í Óshlíð. Að minnsta kosti tvö björg virðast hafa flogið yfir varnargirðingu, lent beint á veginum, rifið upp slitlagið og skilið eftir sig 30-40cm djúpan gíg sem er um tveggja metra breiður og tveggja metra langur. Ljóst er að björgin hafa vegið nokkur tonn og mesta mildi að vegfarendur urðu ekki fyrir þeim. Smærri steinar dreifðust um veginn á um það bil 500 metra löngum vegarkafla. Heimamenn fyrir vestan segja þetta sýna enn og aftur að varnargirðingar sem settar hafi verið upp, haldi ekki þegar slík björg koma niður. Við þetta vakni enn og aftur upp spurningar um hvort slík ógnun sé fólki bjóðandi árið 2005. Bolvíkingar spyrja sig nú hvenær búast megi við göngum í gegnum fjallið, þar sem oftar en ekki liggi misstórir steinar eða björg á veginum þegar um hann er farið. Heimamenn telja í raun mesta mildi að snjó- og grjótskriður hafi ekki kostað fleiri mannslíf í Óshlíðinni. Skammt er síðan gríðarleg björg lentu á gröfu utar í Óshlíð og nánast eyðilögðu hana. Mesta mildi þótti að engin slys urðu á fólki í það skiptið.
GSM-MYND/Haukur Vagnsson
GSM-MYND/Haukur Vagnsson
GSM-MYND/Haukur Vagnsson
GSM-MYND/Haukur Vagnsson
GSM-MYND/Haukur Vagnsson
GSM-MYND/Haukur Vagnsson
GSM-MYND/Haukur Vagnsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×