Viðskipti innlent

Easy does it

Ég verð sannfærðari um það með hverjum deginum að Hannes Smárason hefur bara eitt lokatakmark með eignarhlutnum í easyJet. Það er að eignast félagið að fullu. Hann má hins vegar ekkert tala um það, en hann verður alltaf skrítinn á svipinn þegar maður spyr hann út í þetta. - Ég þekki hann smá í gegnum sameiginlegan kunningja. Ég held að Hannes veðji á ósætti milli systkinanna sem eiga easyJet og muni ná yfirhöndinni innan tíðar. Í það minnsta hélt ég áfram að kaupa easyJet í vikunni og reyndar í FL Group líka. Ég hef enn þá trú á því að markaðurinn hér heima eigi eitthvað inni. Bankarnir eru enn á fullu við að koma peningum í vinnu og varla til sá jólasveinn sem eitthvað hefur grætt á uppsveiflunni að hann sitji ekki á fundum með fyrirtækjasviðum bankanna með einhverja fjárfestingaráætlun í útlöndum. Danmörk er greinilega í uppáhaldi og ég heyri sífellt fleiri bölva því að hafa ekki sinnt skóladönskunni betur. Heyrði meira að segja einn flytja hjartnæma ræðu fulla af eftirsjá um hvað hann hefði verið andstyggilegur við dönskukennarann sinn. - Hann var reyndar dáldið fullur. Ef Danir fara ekki að taka sig á í eigin viðskiptalífi, þá munu Íslendingar kaupa Danmörku innan tíu ára. Ég legg reyndar til að lesendur klippi út þennan pistil og hafi hann á ísskápnum hjá sér næstu tíu árin. Ef ég væri ráðgjafi ömmu minnar í fjárfestingum - sem ég er ekki - þá myndi ég ráðleggja henni að halda bréfunum í bönkunum eitthvað lengur. Ég sagði um daginn við félaga minn að Landsbankinn ætti auðveldlega inni gengið 22 og að Íslandsbanki ætti líka smá sveiflu upp. Eina ástæðan fyrir því að ég geng ekki um bæinn og segi það sama um KB banka er að hann er orðinn svo stór að íslenski markaðurinn ræður varla við hann lengur. Maður hittir alltaf einn og einn sem eru að spá þessu öllu niður. Helst eru þetta einhverjir háskólakennarar sem aldrei hafa hagnast á nokkrum hlut. Ekki einu sinni því að mennta sig. Ef maður hefði alltaf hlustað á vel menntaða úrtölumenn, þá ætti maður ekki það sem maður á í dag. Spákaupmaðurinn á horninu





Fleiri fréttir

Sjá meira


×