Innlent

Fær ekki bætur vegna íþróttaslyss

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði Tryggingastofnun af bótakröfu stúlku sem fékk flugu í augað á unglingalandsliðsæfingu í badminton árið 1997 með þeim afleiðingum að augnbotninn rifnaði. Hún hefur í dag takmarkaða sjón á auganu. Badmintonsamband Íslands hafði ekki keypt tryggingu fyrir iðkendur sína og Tryggingastofnun hafnaði bótakröfu stúlkunnar. Stúlkan átti ekki bótarétt samkvæmt almannatryggingalögum þar sem hún var yngri en sextán ára þegar slysið átti sér stað og það taldi hún ekki standast ákvæði stjórnarskrárinnar, á það féllst dómurinn ekki. Héraðsdómur taldi takmörkun bótaréttar byggja á málefnalegum sjónarmiðum og féllst ekki á að í henni fælist ólögmæt mismunun. Því til stuðnings vitnar dómurinn meðal annars í þingræðu Ellerts B. Schram frá árinu 1975 þegar lögin voru sett, en hann var einn flutningsmanna, og hafði hana til marks um að lögin um bótarétt íþróttamanna hefðu meðal annars verið sett til verndar fjölskyldum sem misstu fyrirvinnuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×