Innlent

Tekið á móti útgerðum með hörku

Það verður tekið á móti með hörku, segir Össur Skarphéðinsson alþingismaður vegna yfirlýsinga útgerðarmanna um að höfða mál gegn ríkinu vegna byggðakvótans og línuívilnunar. Þá er sjávarútvegsráðherra hvergi banginn. Landsamband íslenskra útvegsmanna hefur hótað ríkinu málsókn vegna byggðakvóta og línuívilnunar. LÍU segir útgerðarmenn eiga veiðiheimildirnar sem ríkið taki til ráðstöfunar. Það jafngildi eignatöku og slíkt hljóti að brjóta gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra segir það ekki rétt. Hann segir að í huga stjórnvalda sé enginn vafi á því að um löglega úthlutun sé að ræða. Ef einhver vafi væri á því stæðu þau ekki fyrir þeim. „Verði þeim að góðu, LÍÚ ætti bara að að láta verða af hótunum sínum, það er enginn vafi á því hvernig þau málaferli myndu fara,“ segir Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður. Hann segir veiðiheimildum úthlutað til eins árs í senn og það myndi ekki eignarrétt. Þá segir Kristinn Alþingi geta breytt lögunum hvenær sem er, á hvern þann hátt sem menn koma sér saman um. Alþingi geti breytt úthlutunarkerfnu sérstaklega eða jafnvel afnumið það með öllu og bætir við að honum finnist útgerðarmenn með eindæmum hrokafullir. Árni Mathiesen segir úthlutanir sem þessar alltaf umdeilanlegar og hafi menn efasemdir um lagalegan grundvöll þeirra sé þeim auðvitað frjálst að bera þær undir dómstóla. Stjórnvöld muni ekki taka því illa. Össur Skarphéðinsson, alþingismaður segir yfirlýsingar útgerðarmanna nýjasta dæmi þeirra um ásælni gagnvart sameiginlegri eign þjóðarinnar. Þeir ætli sér greinilega að skapa nýtt stríð kringum kvótann. „Þeir um það,“ segir Össur og bætir við að það verði tekið á móti af fullri hörku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×