Innlent

Handtekinn fyrir veggjakrot

Mótmælandi var handtekinn í miðborg Reykjavíkur í gær grunaður um veggjakrot á styttuna af Jóni Sigurðssyni, Alþingishúsið, Ráðhúsið og fleiri byggingar í miðborg Reykjavíkur í fyrrinótt. Manninum var leyft að fara að loknum yfirheyrslum síðdegis í gær. Að sögn Óskars Þórs Sigurðssonar, lögreglufulltrúa á rannsóknardeild, hélt maðurinn á málningarbrúsa er hann var handtekinn en annar maður sem einnig var á staðnum komst undan á hlaupum. Maðurinn sem handtekinn var er af erlendu bergi brotinn og tilheyrir hópi fólks sem mótmælt hafa Kárahnjúkavirkjun og álveri á Reyðarfirði. Birgitta Jónsdóttir, talsmaður þeirra, segir manninn saklausan af veggjakrotinu. Málningarbrúsi sem maðurinn hélt á hafi ekki verið notaður. Útlendingastofnun hefur gefið út að 21 erlendum ríkisborgara sem mótmælt hafa framkvæmdum fyrir austan verði hugsanlega vísað úr landi. Þeir hafi eina viku til andmæla og verður ákvörðun um brottvísun tekin í framhaldi af því að sögn Ragnheiðar Böðvarsdóttur, forstöðumanns á Útlendingastofnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×