Innlent

Varað við hættulegum merkjablysum

Sprengjudelild Landhelgisgæslunnar varar fólk við að eiga við merkjablys eða svokallaða markera ef það gengur fram á slíkt. Á undanförnum vikum hafa sprengjudeildinni borist tilkynningar um slík blys og þau fundist víða á Snæfellsnesi og á Reykjanesi eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.  Merkjablys eru mikið eru notuð af herjum og björgunaraðilum til sjós, bæði til æfinga og við björgun. Þeir innihalda fosfór sem getur verið hættulegt vegna sjálfsíkveikju sem verður þegar efnið þornar og kemst í snertingu við súrefni, hvort sem blysið hefur verið notað eða ekki. Fosfór brennur hratt og getur valdið miklum eldsvoða sé það geymt nálægt eldfimum efnum og gefur jafnframt frá sér eitraðan reyk sem er mjög hættulegur. Finnist svona blys á víðavangi ber að merkja staðinn og tilkynna það til Landhelgisgæslunnar eða lögreglu. Ekki skal snerta blysið heldur reyna að lesa merkingar sem kunna að vera á því og taka niður upplýsingar um helstu mál, lengd og breidd, ef mögulegt er. Ef viðkomandi hefur myndavél í fórum sínum er gagnlegt að fá myndir sendar til sprengjudeildar Landhelgisgæslunnar. Ef blysið finnst úti á sjó ber að geyma það utandyra fjarri öllum eldfimum efnum. Undir engum kringumstæðum skal geyma þessi blys innandyra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×