Innlent

Mjög hvasst undir Hafnarfjalli

Mjög hvasst er nú undir Hafnarfjalli en þar eru hviður allt upp í 43 metra á sekúndu. Lögreglan í Borgarnesi hvetur fólk með hjólhýsi í eftirdragi og á húsbílum að keyra ekki þar um fyrr en veðrið hefur gengið niður og hvetur hún aðra til að fara varlega þar um slóðir. Lögreglan er nú á staðnum en þar hafa nú þegar þrjú hjólhýsi fokið út af veginum. Engin slys urðu á fólki en eitt hjólhýsanna splundraðist þegar það slitnaði aftan úr bílnum sem dró það. Heldur er að róast hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu en þær hafa haft í nógu að snúast í óveðrinu frá því að þær voru kallaðar út klukkan ellefu. Jón Gunnarsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir allar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að störfum og enn berist nokkrar hjálparbeiðnir. Tveir 40 feta gámar fuku úr Kópavogshöfn í veðurofsanum og hefur þá rekið upp á Löngusker að sögn Jóns, en ekkert er farið að eiga við þá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×