Innlent

Hvannadalshnjúkur hefur lækkað

Hvannadalshnjúkur er aðeins 2.110 metrar eða níu metrum lægri en hann hefur verið sagður vera síðastliðin hundrað ár. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra tilkynnti þetta á tröppum Stjórnarráðsins fyrir stundu. Þar með er hnjúkurinn m.a. orðinn lægri en hæsti tindur Svíþjóðar, Kebnekaise, sem er  2.111 metrar. Í Noregi er það Galdhöpiggen sem hæst gnæfir, 2469 metra yfir sjávarmál, og í Finnlandi er það Haltiatunturi sem er reyndar aðeins 1328 metra hátt. Hvannadalshnjúkur er sem sagt enn hærri en hæstu fjöll Finnlands, og Danmerkur auðvitað þar sem Yding Skovhoej, hæsta fjallið, er 173 metrar en Himmelbjerget er aðeins 147 metra hátt. Í tilkynningu frá Landmælingum Íslands segir að mælingarnar núna séu það ítarlegar að ljóst sé að nákvæm hæð hæsta tinds landsins er 2.109,6 metrar. Mælingarnar fóru fram dagana 27.–29. júlí og heppnuðust í alla staði vel. Greiðlega gekk að koma tækjum að og frá mælingastöðum og hjálpaði gott veður mikið til. Að sögn Magnúsar Guðmundssonar, forstjóra LMÍ, er stefnt að því að mæla hæð Hvannadalshnjúks með reglubundnum hætti í framtíðinni. Áætlað er að það verði gert á tíu ára fresti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×