Sport

Liverpool hættir við Figo

Portúgalski landsliðsmaðurinn Luis Figo fer ekki til Liverpool eins og til hefur staðið en þetta staðfesti knattspyrnustjóri Liverpool, Rafael Benitez nú síðdegis. Krafta Figo er ekki lengur óskað hjá Real Madrid sem hafði gefið í skyn að leikmaðurinn sem á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið mætti fara á frjálsri sölu. Annað hljóð kvað í kútinn þegar Liverpool falaðist eftir honum og nú vill spænska liðið fá 2 milljónir punda fyrir leikmanninn. Figo var búinn að komast að launasamkomulagi við Liverpool en talið er að hann vilji fá á bilinu 60-80.000 pund í vikulaun. "Við erum að skoða aðra möguleika fyrir stöðu hægri kantmanns. Það verður mjög erfitt að landa Figo." sagði Benitez. Liverpool leikur á miðvikudaginn sinn fyrsta leik í forkeppni Meistaradeildarinnar og heldur síðan í æfingaferð til Sviss. Þangað vill stjórinn taka með sér þá leikmenn sem hann hyggst nota í vetur en félagið er við það að ganga frá kaupum á miðjumanni Valencia, Mohamed Lamine Sissoko. Þá bendir flest til þess að Liverpool muni einnig ganga frá kaupum á Southampton sóknarmanninum Peter Crouch í vikunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×