Innlent

Eiturlyfjamarkaðurinn

Götuverð á kókaíni hefur hríðfallið á einum mánuði úr tólf þúsund krónum grammið niður í sjö þúsund og fimm hundruð krónur, samkvæmt verðkönnun SÁÁ. Þessi verðlækkun getur verið vísbending um að einhverjum hafi nýverið tekist að smygla miklu af efninu til landsins.  Verðið hefur lengst af verið um ellefu þúsund krónur fyrir grammið en hefur aldrei verið lægra en núna. Kunnugir telja að ástæða þessa kunni að vera óvenju mikið framboð af kókaíni á markaðnum. Með öðrum orðum að einhverjum hafi tekist að smygla miklu af kókaíni til landsins nýverið. Amfetamínið hefur hinsvegar hækkað frá fyrra mánuði og kostar grammið af því þrjú þúsund sjö hundruð og sjötíu krónur, sem slagar upp í að vera hæsta verð til þessa. Það bendir aftur til þess að skortur sé á efninu á götumarkaðnum, og kann það að eiga sinn þátt í því að lögreglan lagði hald á fjögur kíló af amfetamíni í fórum tveggja litháa við komuna til Seyðisfjarðar með Norrænu í síðustu viku. Hassgrammið gengur nú á átján hundruð krónur, sem er nálægt meðallagi, en það er nokkuð sammerkt með öllum tegundum fíkniefna, að þau eru mun dýrari hér á landi en í nágrannalöndunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×