Innlent

Jón Gerald stefnir Jóni Ásgeiri

Jón Gerald Sullenberger ætlar að stefna Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, fyrir að opinbera bréf sem hann sendi Ríkislögreglustjóra á fimmtudaginn. Þetta kom fram í Kastljósinu í gær þar sem Jón Gerald vísaði til samkomulags sem hann og Jón Ásgeir hefðu gert um að tjá sig ekki opinberlega um málið. Þetta samkomulag hafi verið staðfest fyrir dómi í Bandaríkjunum. Í bréfi Jóns Ásgeirs var farið ítarlega ofan í málið og því meðal annars haldið fram að rannsóknin öll byggði á heiftúðugri og ótrúverðugri kæru eins einstaklings sem bæri hefndarhug í brjósti. Með því að opinbera það segir Jón Gerald að Jón Ásgeir hafi þverbrotið samkomulagið og fyrir það ætli hann að stefna honum. Jón Gerald ásakaði líka Jónatan Þórmundsson lagaprófessor um að hafa fengið háar fjárhæðir greiddar fyrir lagalega álitsgerð sem hann gerði að beiðni Baugs. Þegar fréttastofan leitaði eftir viðtali við Jónatan fyrir hádegisfréttir sagðist hann ætla að láta álitsgerð sína standa og myndi ekki tjá sig að neinu öðru leyti um málið, enda væri lögfræðiálitið tæmandi. Hann sagðist ekki vera talsmaður Baugs og þegar slíkar álitsgerðir væru unnar væri það ekki vaninn að höfundurinn tjáði sig frekar um þær. Spurður um ásakanir Jóns Geralds sagðist hann hafa tekið þá ákvörðun að svara þeim í engu; Jón Gerald mætti tjá sig eins og hann vildi, án þess að hann myndi bregðast við. Jóhannes Jónsson, sem er einn hinna ákærðu, er staddur í London og hann vildi heldur ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað nú rétt fyrir hádegi. Hann sagðist ekki hafa séð Kastljósið í gær og hann hefði aðeins heyrt ásakanir Jóns Geralds út undan sér, en hann myndi ekki svara þeim. Ekki náðist í Jón Ásgeir Jóhannesson í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×