Erlent

Deila hart á Abbas

Hamasliðar brugðust ókvæða við ákvörðum Mahmoud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, um að fresta þingkosningum sem halda átti 17. júlí um ótiltekinn tíma. Þeir segja hann reyna að koma í veg fyrir sigur Hamas en hann segir nauðsynlegt að komast að samkomulagi um nýtt kosningakerfi áður en kosningar fara fram. Abbas sagði í gær að ekki væri hægt að halda kosningar á fyrirhuguðum tíma. Hann nefndi máli sínu til stuðnings að meiri tíma þyrfti til að ræða nýja kosningalöggjöf. Abbas vill að Palestína verði öll eitt kjördæmi en sumir félagar í Fatah-hreyfingunni sem Abbas tilheyrir vilja mörg kjördæmi. "Tíminn er af skornum skammti. Frestun var nauðsynleg svo við gætum gengið frá lagabreytingum og samráði allra fylkinga," sagði Abbas þegar hann tilkynnti að hann hefði frestað kosningunum. Sami Abu Zuhri, talsmaður Hamas á Gaza, var harðorður þegar hann mótmælti ákvörðuninni. "Þessi ákvörðun var tekin einhliða," sagði hann og bætti við að hún markaðist meira af því að Fatah væri í slæmum málum, eins og sveitarstjórnarkosningar hefðu sýnt fram á, fremur en að tekið væri tillit til þjóðarhagsmuna. Hamasliðar ætla þrátt fyrir þetta að virða vopnahléið við Ísraela sem þeir samþykktu vegna beiðna Abbas. Abu Zuhri sagði þó að ákvörðun Abbas græfi undan samskiptum hans við Hamas. Hamasliðar hafa styrkt stöðu sína í palestínskum stjórnmálum að undanförnu, ekki síst vegna mikillar óánægju með spillingu sem lengi hefur viðgengist innan Fatah, hreyfingarinnar sem Yasser Arafat og Abbas eftirmaður hans, hafa sótt áhrif sín til. Hamashreyfingin vann sigur í sveitarstjórnarkosningum fyrr á árinu og virðist líkleg til að vinna þingsæti af Hamas í þingkosningunum, þeim fyrstu sem Hamas tekur þátt í.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×