Innlent

Hæstiréttur sneri tveimur dómum

Hæstiréttur sýknaði í gær tvo bílstjóra af ákæru um að virða ekki hvíldarreglur EES-samningsins. Annar var sýknaður þar sem refsiheimild var óskýr í lögum og hinn vegna skilgreiningar á því hvað vika væri.   Báðir bílstjórarnir viðurkenndu að hafa brotið umrædd lög, þ.e. að hafa ekið of lengi og ekki tekið sér lögboðnar hvíldir. Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði dæmt þá báða til greiðslu sektar og fangelsisvistar ef ekki yrði greitt innan tiltekins tíma. Hæstiréttur sýknaði hins vegar báða í gær. Í öðru málinu var það vegna þess að refsiheimild í íslenskum lögum, með tilliti til brota á umræddum reglum Evrópska efnahagssvæðisins, er ekki skýr og því samræmdist það ekki stjórnarskránni að dæma manninn. Í hinu málinu vildi ákæruvaldið að því yrði vísað frá vegna evrópskrar skilgreiningar á hugtakinu „vika“ sem samkvæmt þeirri skilgreiningu nær frá miðnætti mánudags til miðnættis á sunnudegi. Brotin voru hins vegar framin beggja vegna helgar. Hæstiréttur taldi ekki ástæðu til að vísa málinu frá þar sem ákæruvaldið hefði getað útbúið ákæruna betur og taldi eðlilegt að bílstjórinn yrði frekar sýknaður heldur en að málinu lyki með frávísun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×