Bleikur litur er ekki nóg 12. apríl 2005 00:01 Ég hitti einu sinni ungan og einlægan kommúnista austur í heimi sem las Financial Times á hverjum degi og sniðgekk að mestu önnur dagblöð. Eins og menn þekkja, er Financial Times einkum skrifað fyrir fólk í alþjóðlegu viðskiptalífi. Og þar lá hundurinn grafinn. Þessi landflótta kommúnisti hafði áttað sig á því að Financial Times er skrifað fyrir fólk sem vill fá að vita helstu staðreyndir hvers máls en hefur engan áhuga á skoðunum einhverra blaðamanna eða hugmyndafræði dálkahöfunda. Eins og átrúnaðargoð hans, Karl Marx, bar ungi maðurinn djúpa virðingu fyrir sköpunarmætti kapítalismans og snilli alvörumanna í viðskiptum, sem hann vissi að vildu óbrenglaðri mynd af heiminum en pólitísk blöð gefa. Ég mundi eftir aðdáun þessa byltingarmanns á Financial Times um daginn þegar ég las á fjórðungi úr síðu í blaðinu nákvæma úttekt á flóknu, snúnu og hápólitísku máli. Blaðið reyndi ekki að einfalda eðli málsins, eiginlega þvert á móti, og þaðan af síður reyndi það að segja lesendum sínum hvaða skoðun þeir ættu að hafa. Það benti hins vegar á líklega niðurstöðu ólíkra leiða og útskýrði af hverju ákveðin pólitísk gildi, sem blaðið tók enga afstöðu til, myndu líklega vega þyngra en augljós viðskiptaleg sjónarmið þegar ákvörðunin yrði tekin. Ég var í flugvél á leið til Íslands og upp í hugann kom auðvitað samanburður á þessu uppáhaldsblaði mínu og íslenskum fjölmiðlum. Financial Times hefur heiminn allan að markaðssvæði og meiri peninga en allir íslenskir fjölmiðlar til samans svo slíkt er að einhverju leyti ósanngjarnt. En er þetta ekki líka einföld spurning um hugarfar? Hvað er það við skotgrafirnar sem heillar svo marga á Íslandi? Er það kannski þægilegur skortur á útsýni? Á leiðinni til baka las ég annað bleikt blað, Viðskiptablaðið, sem hefur stundum birt mjög upplýsandi greinar um íslenskt viðskiptalíf og að auki vel skrifaða gagnrýni á fjölmiðla sem menn geta haft bæði gagn og gaman af þótt hún minni raunar stundum dálítið á íslensku skotgrafahefðina. Í blaðinu rak ég augun í nafn mitt í feitletraðri tilvitnun. Sagt var að ég notaði frelsi mitt til að boða takmarkanir á frelsi annarra. Dagsetning blaðsins var 1. apríl og þar sem ég hef beinlínis atvinnu af því að kenna um frjálsa samkeppni í alþjóðaviðskiptum datt mér í hug í augnablik að þarna væri öfugmælagrein í tilefni dagsins. Svo var ekki, heldur var það alvöruþrungin niðurstaða manns sem kynntur var sem fastur penni blaðsins um lögfræðileg málefni, að ég notaði frelsi mitt í viðleitni til að svipta annað fólk frelsi. Fólk var hvatt til að halda vöku sinni. Þetta var útaf því að ég hafði nefnt hér í blaðinu kenningar bresks hagfræðings, sem telur að lífsgæðakapphlaup sé ekki líklegt til að auka hamingju fólks. Sem er raunar flestu fólki svo ljóst að varla þarf að nefna þetta. Aðalatriðið er þó að ég sagði ekki eitt orð um mínar skoðanir á kenningum hagfræðingsins sem fela raunar fæstar í sér nokkuð sem kalla mætti skerðingu á frelsi fólks. Eina persónulega matið sem ég lagði á þetta var að segja að hugmyndir hans um hækkun skatta væru í andstöðu við tíðarandann. Var svona skelfilegt að segja frá einhverju sem ekki passaði við útsýnið úr tiltekinni skotgröf? Og er það alveg óskiljanleg hegðun að einhver segi frá kenningum sem hann er ekki endilega að fullu sammála? Og aftur að Financial Times. Ástæðan fyrir því að ég vissi um rannsóknir hagfræðingsins á tengslum hagfræði og hamingju var að blaðið birti dóm um bók hans. Þótt öllum lesendum Financial Times sé vel ljóst að ýmsar af hugmyndum hagfræðingsins stangast á við hugmyndir ritstjórnar, blaðamanna og dálkahöfunda blaðsins um hið æskilega í skattamálum fékk bókin mjög jákvæða dóma í blaðinu. Hvatt var til frekari rannsókna. Bent var á þá staðreynd að sanngirni, traust og góð félagsleg tengsl gerðu samfélög ekki aðeins hamingjusamari, heldur líka ríkari og að græðgi væri engum góð. Hugarfar skotgrafanna hefur jafn dapurlega áhrif á umræðu og stjórnmálamenn hafa stundum á atvinnulífið. Það hefur líka vond áhrif á nútímalegt atvinnulíf sem er knúið áfram af nýrri og óheftri hugsun. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Skoðanir Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun
Ég hitti einu sinni ungan og einlægan kommúnista austur í heimi sem las Financial Times á hverjum degi og sniðgekk að mestu önnur dagblöð. Eins og menn þekkja, er Financial Times einkum skrifað fyrir fólk í alþjóðlegu viðskiptalífi. Og þar lá hundurinn grafinn. Þessi landflótta kommúnisti hafði áttað sig á því að Financial Times er skrifað fyrir fólk sem vill fá að vita helstu staðreyndir hvers máls en hefur engan áhuga á skoðunum einhverra blaðamanna eða hugmyndafræði dálkahöfunda. Eins og átrúnaðargoð hans, Karl Marx, bar ungi maðurinn djúpa virðingu fyrir sköpunarmætti kapítalismans og snilli alvörumanna í viðskiptum, sem hann vissi að vildu óbrenglaðri mynd af heiminum en pólitísk blöð gefa. Ég mundi eftir aðdáun þessa byltingarmanns á Financial Times um daginn þegar ég las á fjórðungi úr síðu í blaðinu nákvæma úttekt á flóknu, snúnu og hápólitísku máli. Blaðið reyndi ekki að einfalda eðli málsins, eiginlega þvert á móti, og þaðan af síður reyndi það að segja lesendum sínum hvaða skoðun þeir ættu að hafa. Það benti hins vegar á líklega niðurstöðu ólíkra leiða og útskýrði af hverju ákveðin pólitísk gildi, sem blaðið tók enga afstöðu til, myndu líklega vega þyngra en augljós viðskiptaleg sjónarmið þegar ákvörðunin yrði tekin. Ég var í flugvél á leið til Íslands og upp í hugann kom auðvitað samanburður á þessu uppáhaldsblaði mínu og íslenskum fjölmiðlum. Financial Times hefur heiminn allan að markaðssvæði og meiri peninga en allir íslenskir fjölmiðlar til samans svo slíkt er að einhverju leyti ósanngjarnt. En er þetta ekki líka einföld spurning um hugarfar? Hvað er það við skotgrafirnar sem heillar svo marga á Íslandi? Er það kannski þægilegur skortur á útsýni? Á leiðinni til baka las ég annað bleikt blað, Viðskiptablaðið, sem hefur stundum birt mjög upplýsandi greinar um íslenskt viðskiptalíf og að auki vel skrifaða gagnrýni á fjölmiðla sem menn geta haft bæði gagn og gaman af þótt hún minni raunar stundum dálítið á íslensku skotgrafahefðina. Í blaðinu rak ég augun í nafn mitt í feitletraðri tilvitnun. Sagt var að ég notaði frelsi mitt til að boða takmarkanir á frelsi annarra. Dagsetning blaðsins var 1. apríl og þar sem ég hef beinlínis atvinnu af því að kenna um frjálsa samkeppni í alþjóðaviðskiptum datt mér í hug í augnablik að þarna væri öfugmælagrein í tilefni dagsins. Svo var ekki, heldur var það alvöruþrungin niðurstaða manns sem kynntur var sem fastur penni blaðsins um lögfræðileg málefni, að ég notaði frelsi mitt í viðleitni til að svipta annað fólk frelsi. Fólk var hvatt til að halda vöku sinni. Þetta var útaf því að ég hafði nefnt hér í blaðinu kenningar bresks hagfræðings, sem telur að lífsgæðakapphlaup sé ekki líklegt til að auka hamingju fólks. Sem er raunar flestu fólki svo ljóst að varla þarf að nefna þetta. Aðalatriðið er þó að ég sagði ekki eitt orð um mínar skoðanir á kenningum hagfræðingsins sem fela raunar fæstar í sér nokkuð sem kalla mætti skerðingu á frelsi fólks. Eina persónulega matið sem ég lagði á þetta var að segja að hugmyndir hans um hækkun skatta væru í andstöðu við tíðarandann. Var svona skelfilegt að segja frá einhverju sem ekki passaði við útsýnið úr tiltekinni skotgröf? Og er það alveg óskiljanleg hegðun að einhver segi frá kenningum sem hann er ekki endilega að fullu sammála? Og aftur að Financial Times. Ástæðan fyrir því að ég vissi um rannsóknir hagfræðingsins á tengslum hagfræði og hamingju var að blaðið birti dóm um bók hans. Þótt öllum lesendum Financial Times sé vel ljóst að ýmsar af hugmyndum hagfræðingsins stangast á við hugmyndir ritstjórnar, blaðamanna og dálkahöfunda blaðsins um hið æskilega í skattamálum fékk bókin mjög jákvæða dóma í blaðinu. Hvatt var til frekari rannsókna. Bent var á þá staðreynd að sanngirni, traust og góð félagsleg tengsl gerðu samfélög ekki aðeins hamingjusamari, heldur líka ríkari og að græðgi væri engum góð. Hugarfar skotgrafanna hefur jafn dapurlega áhrif á umræðu og stjórnmálamenn hafa stundum á atvinnulífið. Það hefur líka vond áhrif á nútímalegt atvinnulíf sem er knúið áfram af nýrri og óheftri hugsun.