Innlent

Evran verður til skoðunar

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir aðstæður einstakar í efnahagslífinu nú meðan stóriðjuframkvæmdir standa yfir. Þær eigi sér ekki fordæmi og ekki séu til töfraformúlur til að leysa þau vandamál sem upp kunni að koma, hvort sem litið sé til almennrar hagstjórnar eða þrengri þátta eins og vinnumarkaðar. Þetta kom fram í ræðu forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans. Halldór gerði einnig gjaldmiðilinn að viðfangsefni sínu. Hann sagði okkur gjalda þess að fjármagnsmarkaðurinn væri lítill. "Tiltölulega litlar fjármagnshreyfingar inn og út úr landinu geta skapað miklar sveiflur í gengi okkar litlu íslensku krónu. Ég held að þetta sé staða sem við verðum að búa við á meðan við höfum okkar eigin gjaldmiðil," sagði Halldór og bætti því við að með þessu væri hann ekki að segja að upptaka evru myndi leysa öll vandamál. "En þetta er eitt þeirra atriða sem hljóta að koma til skoðunar þegar sveiflur gengisins eru brotnar til mergjar." Halldór lagði áherslu á að umræða um vandamál í hagstjórn væri nú af öðrum toga en hefði verið fyrr á tímum þegar glíman var við verðbólgu og kaupmáttarrýrnun almennings. Hann sagðist kunna betur við umræðu um þau vandamál hagstjórnar sem nú þyrfti að glíma við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×