Sport

Hoyzer laus úr fangelsi

Robert Hoyzer, líkast til frægasti fyrrverandi knattspyrnudómari heims eftir þátt hans í að ákveða úrslit leikja í þýska boltanum fyrir fram, var látinn laus úr fangelsi í dag eftir tveggja vikna dvöl. Hoyzer bíður eftir því að vera ákærður fyrir að hjálpa króatískum glæpahring að ákveða úrslit leikja. Þýsk yfirvöld óttuðust að Hoyzer myndi reyna að flýa land og því var hann settur í gæsluvarðhald. Hoyzer verður þó að tilkynna um ferðir sínar til lögreglu þrisvar í viku og einnig var lagt hald á vegabréf hans. Þrír Króatar, sem taldir eru hafa skipulagt allt svindlið, eru enn í gæsluvarðhaldi. Dómstóll þýska knattspyrnusambandið hafnaði í dag einni af tíu kærum sem honum bárust frá liðum sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni sökum dómgæslu Hoyzers. Dómstóllinn taldi að ekkert óeðlilegt hefði verið við 3-2 sigur Osnabrueck gegn St. Pauli í 1. deildinni í ágúst síðastliðnum, en Hoyzer hafði áður sagt að hann hefði ekki reynt að hafa áhrif á úrslit þess leiks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×