Tíska og hönnun

Vill finna sig í fötunum

"Ég valdi bara það sem ég er alltaf í og mér finnst þægilegast. Það er rauð hettupeysa sem ég fékk í Hagkaup á útsölu á þúsund krónur. Þetta er flík sem ég datt á og ég fer helst ekki úr henni. Hún er frekar þröng og ég er búin að eiga hana í um það bil ár. Síðan á ég líka gallabuxur úr Vero Moda sem ég er búin að eiga í nokkra mánuði og ég er eiginlega alltaf í. Ég tek alltaf ástfóstri við einhverja flík og geng eiginlega í henni þangað til það koma göt þó ég kaupi mér fullt annað nýtt með henni," segir Jóhanna en segist vera tískudrós í hjarta þó hún viðurkenna það kannski ekki. "Ég vil helst ekki fara á djammið nema ég sé í nýjum djammbol eða einhverju nýju. Þá líður mér miklu betur í hjartanu því þá finnst mér ég vera algjör skvísa. Ég er því ekki algjör haugur. Eða ég vona ekki," segir Jóhanna og skellihlær.

Jóhanna fylgir ekki merkjatísku eða því sem er flott hverju sinni. "Ég vel bara það sem mér finnst flott og ég vil finna mig í fötunum. En ég er rosaleg "klippingarmanneskja". Ég fer í klippingu einu sinni í mánuði og geng aldrei út með sömu klippingu og þegar ég fór inn. Ég hef verið með sömu hárgreiðslukonu í tvö ár og ég er algjört tilraunadýr hjá henni. Hún mótar alls kyns skúlptúra í hárið á mér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×