Innlent

Veit ekki hvert framhaldið verður

Hjálmar Sigurðsson, ábúandi á Hrauni í Hnífsdal, segir snjóflóðið í fyrradag það stærsta sem hann viti til að hafi á þessum stað. Gamli bærinn er gjörónýtur en ekki er nema um eitt og hálft ár síðan sonur hans bjó í hluta bæjarins. Þá fór flóðið inn um eldhúsglugga á nýja bænum. Fjölskyldna hafði rýmt húsið kvöldinu áður en flóðið féll. Hjálmar, kona hans og sonur búa nú í góðu yfirlæti hjá systur Hjálmars. Sjálfur vinnur Hjálmar við snjómokstur hjá Ísafjarðarbæ og ruddi meðal annars leið í gegnum flóðið. Hann segist ekki vita hvert framhaldið verði, hvenær eða hvort fjölskyldan fái að snúa aftur heim. "Gamli bærinn er gjörónýtur og allt sem í honum var. Kannski að ég finni eitthvað dót í rústunum. Gífurlegur kraftur var í flóðinu sem tæmdi allan snjó úr stóru gili fyrir ofan bæinn. Nýi bærinn slapp að mestu og er lítið skemmt þar nema kannski parket á gólfi," segir Hjálmar. Hann segir bílskúrinn við nýja bæinn hafa tekið mesta af flóðinu og að svefnherbergisálman hafi því alveg sloppið. Fjárhúsið með um eitt hundrað kindum slapp alveg. Hjálmar segir kindurnar vera í góðu yfirlæti en hann gefur þeim á kvöldin. Segir það þó nokkuð puð þar sem ekkert rafmagn sé á staðnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×