Innlent

Endurálagning Baugs 464 milljónir

Baugi Group hefur verið gert að greiða 464 milljónir króna í skatta vegna endurálagningar ríkisskattstjóra fyrir tekjuárin 1998 til 2002. Baugur fékk ákvörðun skattayfirvalda afhent á gamlársdag. Í yfirlýsingu frá Baugi Group segir að að teknu tilliti til greiðslna sem áður hafi verið inntar af hendi og endurkröfuréttar félagsins á hendur þriðja aðila, þurfi félagið sjálft að bera um 282 milljónir króna. Af þeirri fjárhæð séu um það bil 223 milljónir vegna meints vanframtalins söluhagnaðar við samruna Hagkaupa hf. og Bónuss sf. og fleiri félaga þegar Baugur hf. var stofnaður sumarið 1998. Þá segir í yfirlýsingunni að félagið sætti sig ekki við forsendur endurákvörðunarinnar að því er varðar tilurð Baugs hf. 1998 og muni skjóta ágreiningi um það efni til yfirskattanefndar og/eða dómstóla. Af varfærnisástæðum var hugsanleg tekjuskattskvöð vegna niðurstöðu í frumskýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins frá því í bryjun júní 2004 færð í ársreikningi félagsins fyrir árið 2003. Hagnaður þess árs nam 9.500 milljónum króna, að teknu tilliti til þeirrar kvaðar. Í lok yfirlýsingar Baugs Group segir að tilvikin sem skattrannsóknin og endurákvörðun ríkisskattstjóra taki til, séu að mati félagsins háð miklum vafa. Mikilvægt sé að félagið fái frið til að færa fram athugasemdir sínar gagnvart réttum yfirvöldum. Þá segir að félagið harmi þann leka sem orðið hefur um rannsókn á málefnum félagsins, en alsiða sé og lögbundið, að halda trúnað um slík mál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×