Sport

Jafntefli í kaflaskiptum leik

Arnar Jón Agnarsson lék ágætlega fyrir Fylki í gær. Hann skorar hér eitt þriggja marka sinna.
Arnar Jón Agnarsson lék ágætlega fyrir Fylki í gær. Hann skorar hér eitt þriggja marka sinna.

Það var mikil spenna í Kópavogi í gær þegar HK tók á móti Fylki í DHL-deild karla í handbolta en leiknum lauk með jafntefli 27-27.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur en um miðbik fyrri hálfleiks misstu þeir tvo menn af velli og tveimur fleiri náðu Fylkismenn að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum. Þegar jafnt varð í liðum á ný tóku HK-ingar síðan forystuna aftur og höfðu yfir 15-13 í hálfleik.

Þeir virtust hafa mætt ákveðnari til leiks en náðu ekki að halda sama skriðinu í seinni hálfleik. Fylkismenn unnu upp forskot HK en þegar staðan var 20-18, HK í vil, komu skyndilega fimm mörk í röð frá gestunum sem náðu þriggja marka forskoti. HK jafnaði metin og síðustu mínúturnar skiptust liðin á að skora, þegar mínúta var eftir kom Remigijus Cepulis heimamönnum yfir en Eymar Krüger jafnað­­i þegar tuttugu sekúndur voru til leiksloka. HK fór í síðustu sókn leiksins en hún rann út í sand­inn ­­og úrslitin 27-27.

"Ég er alveg langt frá því að vera sáttur við þessi úrslit. Fylkir var ekkert að spila vel en við vorum algjörir klaufar að ná ekki að nýta okkur það og sigra ­­­þennan leik, við áttum að klára þetta í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn var hrikalegur og varnarleikurinn var eiginlega ekki til staðar," sagði Arnar Reynisson, markvörður HK, eftir leikinn en hann varði fimmtán skot.

Hlynur Morthens í marki Fylkis varði nítján. Heimir Örn Árnason var í aðalhlutverki hjá Fylki að vanda en hann skoraði sex mörk, Remigijus Cepulis skoraði mest fyrir HK eða átta mörk.

Eftir þessi úrslit eru Fylkismenn komnir upp í þriðja sæti deildarinnar en hafa reyndar leikið fleiri leiki en liðin á eftir. Barátta HK-inga fyrir því að ná að enda í efri hlutanum heldur áfram en liðið er í níunda sæti en kringum þá er pakkinn mjög þéttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×