Innlent

Vara við evrópskri svikamyllu

Samtök verslunar og þjónustu vara fyrirtæki við því að borga reikninga frá European City Guide (ECG) ef þau telja sig ekki hafa efnt til skuldarinnar. Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri SVÞ, segir fimm til sex íslensk fyrirtæki hafa haft samband við SVÞ á skömmum tíma vegna málsins. European City Guide fær fyrirtæki til að samþykkja skráningu í gagnabanka án endurgjalds. Síðan fá fyrirtækin sendar upplýsingar til að yfirfara og leiðrétta sem að lokum er staðfest með undirskrift. Með smáu letri stendur hins vegar að undirskriftin jafngildi pöntun á skráningu í þrjú ár og hún kosti um fimmtíu til sextíu þúsund krónur á ári. Sigurður segir ECG hafi í lengri tíma aðstoðað tvö íslensk fyrirtæki. Meðal annars hafi verið hringt heim til eigendanna á kvöldin og þeim hótað öllu illu borgi þeir ekki strax. "Við höfum haft samband við innheimtufyrirtæki og lögmannafélagið og gert þeim grein fyrir málinu og beðið þá um að taka ekki að sér innheimtu," segir Sigurður. Hann segir verstu leiðina vera að borga inn á reikning því þá sé búið að viðurkenna kröfuna. Engu að síður verði að grípa strax til varna ef viðkomandi krafa fari í innheimtuferil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×